Orðin 30

Aldurshópur 1 – höfundar fæddir eftir ársbyrjun 1998

Einstök. Allir verða einhvern tíma að fá hrós eða fá að vita að manni þyki vænt um þá. Mér finnst orðið einstök/einstakur vera fullkomið hrós og hlýtt orð. Manni líður sjálfum svo vel þegar maður er búinn að segja við einhvern annan: Þú ert einstakur. Hver og einn er einstakur, bara á sinn eigin hátt.

Fyrirgefðu. Vegna þess að þetta orð getur lagað vináttu og lagað svo margt sem miður fer, eins og orðið hafi einhvern ofurmátt.

Hjarta. Maður elskar einhvern af öllu hjarta (en ekki öllu lunga). Stóra systir sagði að maður gæti ekki valið hjarta sem fallegt orð (sem litli bróðir 5 ára var búinn að velja), vegna þess að það væri ekki hægt að velja eitthvað sem væri inni í manni. T.d. væri lunga ekkert fallegt orð, sagði hún. En þegar fjölskyldan fór að ræða þetta betur þá urðum við sammála um að hjarta væri fallegt af því að maður getur elskað einhvern af öllu hjarta 🙂

Mamma. Móðirin: Af hverju finnst þér mamma fallegt? Sonurinn: Af því að þú ert mamma mín. Mamman bráðnaði.

Núna. Það eina sem skiptir máli er hvað er að gerast núna.

Sakna. Mér finnst það fallegt, það er fallegt að sakna af því að maður saknar þess sem maður elskar.

Sjónauki. Maður getur séð ýmislegt aukalega með sjónauka.

Spékoppar. Spékoppar eru fallegir. Það er líka svo gaman að segja spékoppar af því það hljómar eitthvað svo furðulega.

Ugla. Uglan er fallegur fugl sem er líka í Póllandi.

Velkomin. Af því að þá líður manni eins og maður eigi að vera þar.

Aldurshópur 2 – höfundar fæddir á árabilinu 1988 til 1997

Fiðringur. Alltaf þegar ég hugsa um fiðring hugsa ég um eitthvað skemmtilegt. Þú færð fiðring í magann áður en þú ferð í rússíbana eða gerir eitthvað spennandi. Tilfinningin sem kemur er nánast ólýsanleg en samt virðist þetta orð lýsa því eins vel og hægt er, nokkrar fjaðrir í maganum á þér sem kitla þig alla að innan. Hver fékk ekki fiðring í magann þegar maður kyssti einhvern í fyrsta skiptið….?

Gluggaveður. Lýsir íslenskri veðráttu allan ársins hring.

Harðjaxl. Orðið er afar lýsandi fyrir það sem það stendur fyrir. X-ið í jaxl segir að hér sé svo sannarlega kominn maður sem getur tekist á við allt. Orðið er þess vegna fallegasta orð íslenskrar tungu, tungumáls harðjaxlanna.

Hljóð. Það getur bæði verið þögn og hljómur, þess vegna finnst mér það yfirburða fallegt. Hljómur og þögn er fallegt, og eitt orð sem er hægt að nota yfir þessar andstæður finnst mér verulega flott!

Hugfanginn. Orðið merkir að vera heillaður af einhverjum, maður er fangi í sínum eigin huga. Þú ert gagntekinn af einhverju eða einhverjum. Mér finnst orðið mjög fallegt.

Kotroskin. Vegna þess að kotroskin er orð sem ég lærði sem barn og ég var alltaf feimin við að nota það sem barn vegna þess að það var svo fullorðinslegt eða kotroskið og mér fannst það hallærislegt. Síðan þá hef ég komist yfir það og mig langar að þetta verði forvörn fyrir börn sem lenda í því að vera kölluð kotroskin og skammast sín fyrir það. Af því að orðið er mjög fallegt, þjált og segir allt sem segja þarf.

Kraðak. Hljómur þess endurspeglar fyrirbærið fullkomlega.

Ratljóst. Það þýðir nógu bjart til að rata. Það að hafa orð yfir það er bara skemmtilegt. (Og það minnir mig alltaf á afa og öll þau orð sem ég hef lært af honum.)

Seigla. Seigla er í einu orði þrjóska, dugnaður og þolinmæði. Óendanlega fallegt orð sem lýsir óbilandi krafti.

Skúmaskot. Skuggalega hlýlegt.

Aldurshópur 3 – höfundar fæddir 1987 og fyrr

Agnarögn. Ögn af ögn, það verður ekki öllu minna. Hljómfagurt og skemmtilegt að segja orðið. Felur í sér eignarfall og nefnifall sama orðsins.

Bárujárn
. Bárujárn er eins og Ísland. Þótt það sé hrátt og kalt þá er því margt til lista lagt og það stendur allar veðráttur af sér.

Bergmál
. Ég hugsaði aldrei um þetta orð fyrr en að sænskur vinur minn, sem skilur einnig töluvert í íslensku, benti mér á að þetta orð væri svo undarlega fallegt. Tungumál fjallanna. Hann sagði að þetta væri eitt af fjölmörgum fallegum íslenskum orðum og við værum mjög dugleg að búa til góð orð í stað þess að taka upp erlend orð. Þegar ég hugsa núna um þetta orð finnst mér það afar fallegt og afar íslenskt.

Einurð
. Í orðinu sameinast á fallegan hátt örlítið af þrjósku, smá sérviska og mikið af festu. Orðið hljómar líka einstaklega tignarlega og fallega.

Hughrif
. Hughrif verða þegar eitthvað hrífur sálina í umhverfinu, það verður hrifning eða sefjun sem hreyfir við því besta í manninum:  t.d.  fallegt landslag, góð tónlist, listaverk, leiklist. Og hughrif verða við að sjá vel framsettan mat, heyra um dugnað og afrek, hlusta á góða fyrirlesara eða kennara, finna gæsku og góðvild, bros frá ókunnugum og við margt annað. Að verða fyrir hughrifum er að lifa.

Ívaf
. Orðið er mjög íslenskt og vísar í aldagamla þekkingu sem var mikilvæg fyrir afkomu okkar, vefnaðinn eða þann þráð, ívafsþráðinn, sem myndar bindingu við uppistöðuþræðina í vefstólnum þannig að úr verður voð, sem er einn mikilvægasti þátturinn í tilveru manneskjunnar, það að eiga voð í fatnað. Orðið hefur ljóðræna íhlutun og það bindur saman orð, stemmningu eða merkingu og myndar heildræna sýn, eins og t.d…. með léttu ívafi,  ….blandað ívafi,  ….. matur með indversku ívafi, …… með Harry Potter ívafi o.s.frv. Það lætur lítið yfir sér en myndar stóra samstæða heild í íslensku máli …… með ívafi …. þá þarf ekki að segja meir, það skilst við hvað er átt. Þó segir það kannski ekki alla söguna, það vinnur á, eins og framgangur vefnaðarins, orðið hvetur þannig til skapandi hugsunar, maður þarf að ímynda sér, vefa sinn eigin vef, til að átta sig á niðurstöðunni og þannig er líka orðið, ívaf, ófyrirsjáanlegt.

Jæja
. Jæja getur þýtt allt og ekkert eftir því hvernig það er notað. Jæja er fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar öll önnur orð eru ekki til staðar. Jæja er hægt að nota við allar mögulegar aðstæður. Jæja er besti ísbrjótur á íslenskri tungu.

Ljósmóðir
. Tvö fallegustu hugtök veraldar sett í eitt.

Sindrandi
. Orðið er svo tært og tilgerðarlaust. Það felur í sér töfraheim Íslands; frostbrakandi vetrarstillur, dansandi næturljós, morgundögg í fjallakyrrð, merlandi sjóndeildarhring við sólsetur… svo fátt eitt sé til talið.

Víðsýni
. Það lýsir því sem einna fegurst er við íslenskt landslag og einnig þeim eiginleika mannfólksins sem gæti orðið til að forða mörgu böli ef fleiri temdu sér.